Fyllingarefni
Ertu að hugsa um fá fyllingarefni?
Algengasta fyllingarefnið sem notað er til lýtalækninga og fegrunaraðgerða er hyaluronsýra sem er náttúrulegt efni og finnst m.a. í brjóski. Efnið er mismunandi seigt eftir því hver tilgangurinn er með notkun þess. Því er sprautað inn í húðina í ákveðinni dýpt undir hrukkur eða dældir til að slétta úr þeim eða grynnka. Efninu er komið fyrir nokkru dýpra í varir til að stækka þær. Líkaminn eyðir efninu á vissum tíma og eru áhrifin því ekki varanleg. Algengt er að efnið endist í u.þ.b. eitt ár og í besta falli upp undir 2 ár. Í einstaka tilfellum eyðist það þó mun hraðar eða jafnvel á fáeinum mánuðum.
Myndir fyrir og eftir notkun hyalonsýru. Teknar af vefsíðu Women Republic
Er fyllingarefni lausnin fyrir þig?
Grunnar hrukkur geta horfið alveg eftir notkun á hyalonsýru en dýpri hrukkur grynnka og verða síður sýnilegar. Þegar efninu er bætt í varir ætti árangur að verða í samræmi við þínar hugmyndir um árangur af meðferð þar sem sjúklingur er vakandi á meðan meðferð stendur og getur tekið þátt í að ákveða magn fyllingarinnar. Líkaminn eyðir efninu með tímanum og áhrif meðferðarinnar fjara út á tilteknum tíma oft í kringum eitt ár stundum og í besta falli 2 ár en hugsanlega nokkrir mánuðir í einstaka tilfellum. Ending efnisins er meiri undir hrukkum en í vörum.
Áhættuþættir
Áhætta af notkun hyaluronsýru nánast engin. Ofnæmisviðbrögð eru nánast óþekkt og sýkingar afar sjaldgæfar. Þar að auki er efninu sprautað inn í húðina - og því ekki skorið. Þá er breytingin sem er framkvæmd ekki varanleg heldur fjarar út á ákveðnum tíma eins og fyrr er getið.
Hægt er að sprauta inn fyllingarefni án deyfingar og er það stundum gert. Algengast er þó að staðdeyfa a.m.k. að einhverju leyti þau svæði sem meðhöndla á, t.d. varir eða enni. Svæfing er óþörf.
Að ákveða notkun fyllingarefnis
Æskilegt er að hafa ljósa mynd af þeim væntingum sem þú hefur af notkun fyllinlgarefnis. Mikilvægt er að ræða allar væntingar við lýtalækni og spyrja þeirra spurninga sem kunna að brenna á. Einnig mikilvægt að hafa í huga að þó góður árangur náist er hann ekki varanlegur og því þarf að endurtaka innsprautun reglulega til að viðhalda árangri.