Algengar spurningar
Spurning 1. Hver er munurinn á lýtaaðgerð og fegrunaraðgerð?
Svar: Lýtaaðgerðir sem eru framkvæmdar til að lagfæra ástand sem er afleiðing sjúkdóma og slysa. Til dæmis við uppbyggingu brjósta hjá konum sem hafa misst brjóst vegna krabbameins og koma sjúkratryggingar að lýtaaðgerðum af því tagi, Fegrunaraðgerðir hins vegar eru framkvæmdar í þeim tilgangi að fegra eða bæta útlit eða endurheimta yngra útlit. Einstaklingar sem leita slíkra aðgerða teljast ekki sjúkir né bera þeir menjar áverka eða slysa. Almannatryggingar taka því ekki þátt í kostnaði við slíkar aðgerðir. Dæmi um fegrunaraðgerðir eru andlitslyfting, augnlokaaðgerðir, brjóstastækkun o.fl. Fegrunaraðgerðir eru einstaklingsbundnari og ekki alltaf jafnaugljósar og lýtaaðgerðir. Mikilvægt er að fólk geri hafi raunhæfar væntingar til meðferðarinnar. Ef svo er og ef vandi viðkomandi er vel skilgreindur getur má búast við góðum ávinningi af aðgerð.
Spurning 2. Geta konur sem hafa farið í brjóstastækkun verið með barn á brjósti?
Svar: Eftir brjóstastækkun með siliconpúðum á brjóstagjöf að vera í góðu lagi og hefur stækkunin engin áhrif á mjólkina. Púðinn er settur á bak við brjóstið og stundum undir vöðvann, þannig að aldrei er farið inn í sjálft brjóstið. Gott er að láta sex mánuði líða frá lokum brjóstagjafar þar til aðgerð er gerð á brjósti.
Spurning 3. Er hægt að laga aukahúð á maga og (lafandi) brjóstum hjá karlmanni sem hefur lést mikið á fremur skömmum tíma?
Svar: Það má minnka húð bæði á maga og á brjóstum með skurðaðgerðum. Báðar aðgerðir leiða til þess að ör verða sýnileg. Eftir magaaðgerð má auðveldlega fela örið í buxum neðan við strenginn. Hins vegar er erfiðara að fela ör eftir aðgerð á brjóstum t.d. í sundi. Þetta verður því alltaf matsatriði. Best er að koma og fá ráðgjöf.
Spurning 4. Hvaða vandamál má búast við að geti komið upp í kjölfar lýta- og fegrunaraðgerða?
Svar: Eftir skurðaðgerð getur verið hætta á blæðingum og sýkingum en hættan fer eftir umfangi aðgerðar. Önnur vandamál sem upp geta komið fara eftir því hvaða aðgerð hefur verið framkvæmd. Í flestum tilfellum sitja eftir ör sem oftast eru lítið áberandi. Stundum geta fylgt tímabundin óþægindi eftir svæfingar, svo sem ógleði, svimi o.fl. Mikilvægt er að fara að ráðleggingum mínum í kjölfar aðgerða til að minnka líkur á vandamálum.
Spurning 5. Hver er munurinn á brjóstaminnkun og brjóstalyftingu?
Svar: Í brjóstalyftingu er fjarlægð aukahúð og brjóstunum lyft. Stundum á við að setja einnig brjóstapúða þegar gert er brjóstalyft. Í brjóstaminnkun er fjarlægð fita og brjóstvefur og í leiðinni gert brjóstalyft.
Spurning 6. Er fitusog gert í gegnum húðina eða þarf að gera skurði í húðina?
Svar: Fitusog er gert með mjóum rörum 3-4mm að þykkt og því eru gerðir litlir skurðir, 4-5mm að lengd til að koma rörunum inn svo hægt sé að sjúga fituna út. Fyrir hvert svæði sem er meðhöndlað eru yfirleitt gerðir tveir skurðir.
Spurning 7. Hvað kostar að fara í fitusog og hvað tekur slík meðferð langan tíma?
Svar:Tímalengd og kostnaður fer eftir umfangi aðgerðar. Hvert tilfelli er rætt í viðtali og skoðað nánar.
Spurning 8. Tekur Tryggingastofnun þátt í kostnaði við lýtaaðgerð?
Svar: Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaði við aðgerð sem er afleiðing af sjúkdómi, slysi eða meðfætt lýti. Hún tekur hinsvegar ekki þátt í fegrunaraðgerð sem ekki er skilgreind nauðsynleg; þ.e. hjá þeim sem ekki eru sjúkir eða bera þess merki að hafa verið veikir eða lent í slysi. Andlitslyfting, augnlokaaðgerðir, brjóstastækkun og svuntuaðgerð eru því dæmi um fegrunaraðgerðir.
Spurning 9. Hvenær borga tryggingar brjóstaminnkun?
Svar: Brjóstaminnkun er borguð af Tryggingastofnun þegar ca. meira en 500 grömm þarf að fjarlægja af hvoru brjósti.
Spurning 10. Er hægt að undirbúa sig fyrir aðgerð með einhverjum hætti?
Svar: Eftir að aðgerð hefur verið ákveðin eru gefnar leiðbeiningar um undirbúning fyrir aðgerð sem er mismunandi eftir umfangi. Í sumum tilfellum þarf að fasta fyrir aðgerð (alltaf fyrir svæfingu). Í öðrum tilfellum er mikilvægt að hætta að reykja fyrir aðgerð, gera hlé á inntöku tiltekinna lyfja og fæðubótarefni og sinna hreinlæti og sóttvörnum skv. fyrirmælum. Einnig skiptir máli að vera vel út hvíldur í sem eins góðu líkamlegu ástandi og kostur er fyrir hverja aðgerð.
Spurnig 11. Af hverju skipta reykingar máli í lýta- eða fegrunaraðgerð?
Svar: Lýtalæknar fara yfirleitt fram á það við tilvonandi sjúklinga, sérstaklega þá sem eru að fara í stærri skurðaðgerð, að þeir hætti reykingum í allt að fjórar vikur fyrir aðgerð þar sem reykingar geta hamlað og tafið fyrir því að sár grói. Þá er það þekkt staðreynd að fylgikvillar aðgerða eru mun tíðari hjá reykingafólki bæði í aðgerð sem og eftir aðgerð.
Spurning 12. Þarf maður að hafa sauma lengi í sér eftir aðgerð?
Svar: Oft er saumað með saumum sem eyðast og þarf því ekki að fjarlægja. Saumar í andliti eru yfirleitt fjarlægðir fimm til átta dögum eftir aðgerð. Á bol og útlimum þurfa slíkir saumar að vera lengur eða í átta til fjórtán daga.