English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Augnalokaaðgerð

Ertu að hugsa um að láta laga á þér augun?

Aðgerðir umhverfis augu (sem kallast öðru nafni „augnaplastík” eða „blepharoplasty“) felast í því að fjarlægja fitu – og yfirleitt umframhúð líka – af svæðinu fyrir ofan og/eða neðan augun. Þessar aðgerðir geta losað þig við húðfellingar sem lafa yfir augun og þrútna „poka“ neðan við augun, sem gera þig eldri og þreyttari í útliti og geta jafnvel haft áhrif á sjónina. Þær fjarlægja hins vegar ekki broskrukkur eða aðrar hrukkur, dökka bauga neðan við augun eða lyfta augabrúnunum. Aðgerð umhverfis augu er gerð ein og sér eða samhliða öðrum aðgerðum, t.d. ennislyftingu eða andlitslyftingu.
Ef þú ert að hugsa um aðgerð umhverfis augun gætu upplýsingarnar hér á vefnum veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni, í  hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklingsbundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn endilega ef þig langar að vita eitthvað meira.

  

Er slík aðgerð lausnin fyrir þig?
Aðgerð umhverfis augu getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en hún breytir e.t.v. ekki útliti þínu í samræmi við það sem þú heldur að hún geri eða fær fólk til þess að umgangast þig á annan hátt. Áður en þú ákveður að gangast undir skurðaðgerð skaltu íhuga vel væntingar þínar og ræða þær við lækninn.
Aðgerðin hentar þeim best sem eru líkamlega hraustir, í góðu andlegu jafnvægi og hafa raunhæfar væntingar. Flestir eru eldri en 35 ára en ef húðfelling ofan við augu er ættareinkenni geta yngri einstaklingar sóst eftir aðgerð. Einstaka heilsuvandamál geta gert aðgerðina áhættusamari, m.a. þurr augu, hár blóðþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki. Ef þú hefur átt við sjónhimnuvandamál eða gláku að stríða skaltu ráðfæra þig við augnlækninn þinn áður en þú tekur ákvörðun.

 

Áhættuþættir

Þegar reyndur skurðlæknir framkvæmir aðgerðir umhverfis augu eru hliðarverkanir sjaldgæfar og yfirleitt litlar. Þó er alltaf viss áhætta á hliðarverkunum, m.a. sýkingu eða slæmum viðbrögðum við svæfingu. Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.
Minni háttar hliðarverkanir sem stundum koma fram eftir þessar aðgerðir eru m.a. sjóntruflanir í nokkra daga og tímabundin bólga í augnhvörmum. Einstaka sjúklingar eiga erfitt með að loka augunum fyrir svefn og í örfáum undantekningartilvikum er það vandamál varanlegt. Efst á síðu.

Að ákveða skurðaðgerð

Góð tjáskipti milli þín og læknisins eru bráðnauðsynleg. Hann þarf að fá upplýsingar um almennt heilsufar þitt, svo þú skalt vera tilbúin(n) að veita þær. Láttu lækninn endilega vita hvort þú reykir eða takir inn einhver lyf, bætiefni eða annað, þ.á.m. magnýl eða eitthvað sem hefur blóðþynnandi áhrif.
Við fyrstu skoðun athugar læknirinn sjónina þína og táramyndun augnanna. Þú ættir að hafa á hreinu upplýsingar frá augnlækni eða útkomuna úr síðustu sjónskoðun. Ef þú notar gleraugu eða linsur, taktu þau með. Læknirinn ræðir um væntingar þínar og hvort þú kjósir aðgerð eingöngu ofan eða neðan við augu, eða hvort tveggja, og einnig hvort ráðlegt sé að framkvæma aðra aðgerð samhliða þessari, t.d. ennislyftingu.
Á meðan á skoðun stendur segir læknirinn hvort hann muni nota svæfingu eða staðbundna deyfingu, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Tryggingastofnun tekur ekki þátt í kostnaði vegna þessara aðgerða. Ekki hika við að spyrja lækninn ef þú hefur einhverjar spurningar, sérstaklega varðandi væntingar þínar eða áhyggjur. Efst á síðu.

Undirbúningur fyrir skurðaðgerð

Læknirinn veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Fáir þú kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni. Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina og verði þér innan handar í 1-2 daga eftir aðgerðina. Efst á síðu.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Aðgerð umhverfis augu tekur yfirleitt 1-2 tíma en flóknari aðgerðir geta tekið lengri tíma. Yfirleitt þarf ekki svæfingu, heldur einungis staðdeyfingu. Oftast er byrjað á augnlokum og síðan unnið neðan við augu. Gerðir eru skurðir sem fylgja eðlilegum fellingum á augnlokum og rétt neðan við neðri augnhár. Ef eingöngu þarf að fjarlægja fitu neðan við augu, og enga umframhúð, er stundum skorið innanvert við augað og þá sést ekkert ör (transconjunctival blepharoplasty). Þetta gildir yfirleitt frekar um yngri sjúklinga með þykkri og teygjanlegri húð. Læknirinn skrifar upp á verkjalyf og e.t.v. sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu, áður en þú ferð af sjúkrastofnuninni. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Eftir aðgerðina er sett smyrsli í augun. Þegar deyfingin fer að hverfa finnst þér kannski augnlokin vera strekkt og aum en þú getur dregið úr sársauka með verkjalyfjum. Ef þú ert hins vegar mjög kvalin(n) ættirðu að hringja strax í lækninn. Reyndu að liggja með höfuðið hærra en líkamann fyrstu dagana og notaðu kalda bakstra til að minnka bólgu og mar. Marið er verst fyrstu vikuna en getur verið sýnilegt í 2-4 vikur. Þú færð lyfseðil fyrir augnsmyrsli sem borið er í augun skv. fyrirmælum læknis. Fyrstu vikurnar gætirðu átt bágt með að þola mikla birtu og fundið fyrir aukinni táramyndun og öðrum sjóntruflunum. Eftir 3-5 daga eru saumar fjarlægðir og þegar þeir eru farnir minnkar bólgan umhverfis augun og þér fer að líða mun betur. Efst á síðu.

Fullum bata náð

Þú ættir að geta lesið eða horft á sjónvarp eftir 2-3 daga. Samt ættirðu ekki að nota kontaktlinsur fyrstu 2 vikurnar og þær geta jafnvel valdið þér óþægindum fyrst um sinn. Flestir eru tilbúnir að láta sjá sig innan um fólk og snúa aftur til vinnu eftir eina til tvær vikur. Þá ættirðu að geta hulið mar, ef eitthvað er eftir, með andlitsfarða. Sterkt sólarljós, vindur og fleira getur valdið þér óþægindum í nokkrar vikur, svo þú ættir að vera með sólgleraugu utandyra. Yfirleitt er fólki ráðlagt að gera sem minnst í 3-5 daga og forðast mikla áreynslu í 3 vikur.  Mjög mikilvægt er að forðast hluti sem hækka blóðþrýstinginn, t.d. að beygja sig fram, lyfta þungum hlutum og stunda erfiðar æfingar. Ath. að áfengir drykkir stuðla að vökvasöfnun líkamans, og reyndu því að takmarka neyslu þeirra. Efst á síðu.

Nýja útlitið

Það tekur líkamann ávallt einhvern tíma að jafna sig og örin geta verið ljósrauð í u.þ.b. hálft ár eftir aðgerðina. Með tímanum fölna þau og verða að þunnri, hvítri línu sem er næstum ósýnileg. Hins vegar munu jákvæðu áhrifin af augnaðgerðinni – opnari og unglegri augnaumgerð – endast í mörg ár.

mynd2

Efst á síðu.

Ottó Guðjónsson.

Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600