English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Brjóstalyfting

Ertu að hugsa um brjóstalyftingu?

 

Eftir því sem árin líða geta brjóstin á konum látið á sjá, m.a. vegna meðgöngu, brjóstagjafar og þyngdaraflsins. Þegar teygjanleiki húðarinnar minnkar tapast oft lagið á brjóstunum, þau eru ekki eins stinn og byrja að síga.
Brjóstalyfting eða mastopexy er skurðaðgerð sem lyftir brjóstunum og endurmótar þau. Með þessari aðgerð er einnig hægt að minnka dökka svæðið (areola) umhverfis geirvörturnar. Fyrir konur með lítil brjóst eða slöpp, t.d. eftir meðgöngu, er hægt að setja púða í brjóstin um leið og þeim er lyft, til að gera þau fyllri. 
Ef þú ert að hugsa um brjóstalyftingu gætu upplýsingarnar hér á vefnum veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni - í hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklings-bundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn endilega ef þig langar að vita eitthvað meira.


Myndirnar sýna konu fyrir og eftir brjóstalyftingaraðgerð.

 

Er brjóstalyfting lausnin fyrir þig?

Brjóstalyfting hentar þeim konum mjög vel sem eru heilbrigðar, í tilfinningalegu jafnvægi og hafa raunhæfar væntingar varðandi aðgerðina. Margar konur sækjast eftir brjóstalyftingu vegna þess að meðganga og brjóstagjöf hafa valdið sliti á brjóstunum og þau eru farin að síga. Ef þú ætlar þér að eiga fleiri börn gæti verið ráðlegt að bíða þar til barneignum er lokið. Það er engin sérstök áhætta samfara aðgerðinni hvað t.d. brjóstagjöf varðar, en ný meðganga getur teygt á brjóstunum aftur og dregið úr áhrifum aðgerðarinnar.
Hafðu í huga að brjóstalyfting getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en hún þarf ekki endilega að gjörbreyta útliti þínu eða verða til þess að fólk umgangist þig á annan hátt.

Áhættuþættir

Brjóstalyfting er alls ekki einföld aðgerð en hún er mjög örugg í höndum reynds skurðlæknis. Þó eru alltaf einhverjir áhættuþættir varðandi skurðaðgerðir, t.d. vegna svæfingar. Blæðing eða sýking eftir brjóstalyftingu eru ákaflega sjaldgæfar. Brjóstalyfting hefur í för með sér sýnileg ör sem verða ávallt til staðar, en sjást t.d. ekki þegar þú ert í brjóstahaldara eða sundfötum. Aðgerðin hefur í einstaka tilfellum dregið úr tilfinningu í geirvörtum og brjóstum.
Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.

Að ákveða skurðaðgerð

Ræddu væntingar þínar við lækninn. Hver sjúklingur (og hver læknir) hefur mismunandi skoðun á því hvaða stærð eða lögun á brjóstum þykir eftirsóknarverð. Læknirinn skoðar á þér brjóstin á meðan þú stendur upprétt. Hann ræðir þá þætti sem geta haft áhrif á aðgerðina, t.d. aldur þinn, stærð og lögun brjóstanna, ástand húðarinnar og hvort ráðlegt sé að bæta púðum í brjóstin. Þið ættuð einnig að ræða hvar geirvartan verði staðsett, þar sem hún verður flutt ofar í aðgerðinni og ætti að vera nokkurn veginn í sömu hæð og húðfellingin undir brjóstunum. Læknirinn lýsir aðgerðinni og fullvissar sig um að þú gerir þér grein fyrir örunum sem hún skilur eftir sig.
Á meðan á skoðun stendur útskýrir læknirinn hvaða svæfingaraðferð hann kýs að nota, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði vegna brjóstalyftingar. Efst á síðu.

fyrir aðgerð no1 no 2 eftir aðgerð
Myndirnar sýna brjóstalyftingaraðgerð.

Undirbúningur fyrir skurðaðgerð

Ef aldur þinn eða fjölskyldusaga gefur ástæðu til mun læknirinn e.t.v. ráðleggja þér að fara í brjóstamyndatöku (mammogram) fyrir aðgerðina. Hann veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Ef þú reykir er mikilvægt að hætta a.m.k. 4 vikum fyrir aðgerð. Ef þú færð kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni.  Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina og sé þér innan handar í 1-2 daga eftir aðgerðina. Efst á síðu.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Fyrir aðgerð færðu kæruleysissprautu hjá svæfingarlækni og ert síðan svæfð.
Brjóstalyfting tekur yfirleitt 2-3 tíma. Aðgerðinni er lýst með skýringarmyndum á fyrri blaðsíðu, sem sýna hvernig skurðir eru gerðir. Yfirleitt er saumað umhverfis brúna svæðið (aerola) sem umlykur geirvörtuna, síðan í beinni línu niður á við og að húðfellingunni undir brjóstunum.
Ef púðar eru settir í brjóstin samhliða brjóstalyftingunni er þeim komið fyrir undir brjóstavefnum. Læknirinn skrifar upp á verkjalyf og e.t.v. sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu, áður en þú ferð af sjúkrastofnuninni. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Eftir aðgerðina verður þú með grisjuumbúðir. Brjóstin verða marin, bólgin og aum í einn eða tvo daga en þú ættir ekki að finna fyrir miklum sársauka. Eftir nokkra daga er umbúðunum skipt út fyrir mjúkan stuðningsbrjóstahaldara. Í honum þarftu að vera allan sólarhringinn, yfir sáraumbúðum, í 3-4 vikur. Saumarnir eyðast af sjálfu sér. Ef þér finnst húðin á brjóstunum vera mjög þurr geturðu borið á þig rakakrem annað slagið. Varastu að toga í húðina og ekki koma nálægt skurðunum.
Væntanlega hefurðu minni tilfinningu en áður í geirvörtunum og brjóstunum, vegna bólgunnar eftir aðgerðina. Þessi  doði minkkar yfirleitt á næstu 6 vikum á meðan bólgan er að hverfa, en hann getur varað í næstum ár, og í einstaka tilfellum til langframa.
Læknrinn veitir ráðgjöf um græðandi krem sem hægt er að nota eftir aðgerðina.

Efst á síðu.

Fullum bata náð

Vertu þolinmóð á leiðinni til fulls bata. Fyrstu dagana ættir þú að taka því rólega og halda þig frá vinnu í viku eða lengur, eftir því hvernig þér líður. Ekki lyfta neinu upp fyrir höfuð í 3-4 vikur. Ef þú verður vör við einhver óeðlileg einkenni, hafðu samband við lækninn.
Læknirinn gefur þér nákvæmar leiðbeiningar um hvenær þú mátt byrja að hreyfa þig. Ráðlegt er að halda sig frá kynlífi í a.m.k. viku og forðast erfiða líkamsrækt í mánuð. Farðu síðan hægt af stað. Ef þú verður þunguð ætti aðgerðin ekki að hafa áhrif á brjóstagjöf, þar sem mjólkurkirtlar og geirvörtur eru ósködduð. Efst á síðu.

Nýja útlitið

Læknirinn leggur sig fram við að gera örin eins lítið áberandi og mögulegt er. Samt skaltu hafa í huga að ör eftir brjóstalyftingu eru sýnileg til langframa. Þau geta virst ójöfn og rauð í fleiri mánuði en fölna smám saman. Sem betur fer eru örin þannig staðsett að brjóstahaldari felur þau og þú getur verið í flegnum toppum. Hafðu einnig hugfast að brjóstalyfting gerir brjóstin ekki stinn ævilangt – áhrif þyngaraflsins, öldrun, meðganga og bjúgsöfnun munu taka sinn toll. Konur sem fá púðafyllingu með brjóstalyftingu geta vænst þess að áhrifin endist lengur.
Ánægja þín með brjóstalyftinguna verður meiri ef þú skilur um hvað aðgerðin snýst og hefur raunhæfar væntingar.

Ottó Guðjónsson.

Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Álfheimar 74, 7. hæð, 108 Reykjavik
Sími:
515 1600