English

Ottó Guðjónsson lýtalæknir

Nefaðgerð

Ertu að hugsa um nefaðgerð?

Nefaðgerð, rhinoplasty, eða aðgerð til þess að endurmóta nefið, er meðal algengustu fegrunaraðgerða. Nefaðgerð getur minnkað nefið, stækkað það, breytt laginu á nefbroddinum eða nefhryggnum, minnkað nasaholurnar eða breytt hlutfallinu á milli nefs og efri varar.
Ef þú ert að hugsa um nefaðgerð gætu upplýsingar í þessum bæklingi veitt þér grundvallarskilning á aðgerðinni, í hvaða tilfellum hún getur hjálpað, hvernig hún fer fram og við hvaða árangri þú getur búist. Hér er kannski ekki að finna svör við öllum þínum spurningum, þar sem margt er einstaklingsbundið varðandi skurðaðgerðir. Spyrðu lækninn endilega ef þig langar að vita eitthvað meira.

Er nefaðgerð lausnin fyrir þig?

Nefaðgerð getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en hún breytir e.t.v. ekki útliti þínu í samræmi við það sem þú heldur að hún geri eða fær fólk til þess að umgangast þig á annan hátt. Áður en þú ákveður að gangast undir skurðaðgerð skaltu íhuga vel væntingar þínar og ræða þær við lækninn.
Aðgerðin hentar þeim best sem vilja fá bætt útlit en búast ekki við fullkomnun. Ef þú ert líkamlega hraust(ur), í góðu andlegu jafnvægi og hefur raunhæfar væntingar, gæti nefaðgerð hentað þér. Nefaðgerð er yfirleitt framkvæmd til að fegra og bæta útlitið. Aldur getur skipt máli varðandi aðgerðirnar. Mikilvægt er að taka til greina félagslega og tilfinningalega aðlögun unglinga til þess að læknirinn viti að aðgerðin sé það sem hann eða hún – en ekki foreldrarnir – virkilega sækjast eftir.

Áhættuþættir

Þegar reyndur skurðlæknir framkvæmir nefaðgerð eru hliðarverkanir sjaldgæfar og yfirleitt litlar. Þó er alltaf viss áhætta á hliðarverkunum, m.a. sýkingu, blóðnösum eða slæmum viðbrögðum við svæfingu.
Eftir aðgerðina geta örsmáar háræðar sprungið og birst eins og litlir, rauðir blettir á húðinni; þetta eru yfirleitt smávandamál en geta varað áfram. Hvað ör varðar eru nefaðgerðir yfirleitt gerðar innan í nefinu og þá sjást engin ör. Þegar um „opna“ aðgerð er að ræða, eða þegar nasavængir eru minnkaðir, eru agnarsmá ör fyrir neðan nefið sem sjást yfirleitt ekki.
Þú getur dregið úr áhættunni með því að framfylgja nákvæmlega leiðbeiningum skurðlæknis, bæði fyrir og eftir skurðaðgerð, sérstaklega hvað hreyfingu eftir aðgerð varðar.

Að ákveða skurðaðgerð

Góð tjáskipti milli þín og læknisins eru bráðnauðsynleg. Við fyrstu skoðun spyr læknirinn þig hvernig þú vilt að nefið á þér líti út, hann skoðar uppbyggingu nefs og andlits og ræðir möguleikana við þig. Hann útskýrir einnig þá þætti sem geta haft áhrif á aðgerðina og árangur hennar, m.a. beinabyggingu í nefi, brjóskið, andlitslag, húðina, aldur þinn og væntingar. Láttu lækninn endilega vita hvort þú reykir eða takir inn einhver lyf, bætiefni eða annað, þ.á.m. magnýl eða eitthvað sem hefur blóðþynnandi áhrif.
Á meðan á skoðun stendur segir læknirinn hvaða svæfingaraðferð hann kýs að nota, hvar aðgerðin fer fram og hvað hún kostar. Sjúkratryggingar taka yfirleitt ekki þátt í kostnaði vegna nefaðgerðar nema hún sé framkvæmd vegna lýta eða öndunarörðugleika. Ef þú hefur einhvern tíma lent í óhappi, nefbrotnað eða gengist undir skurðaðgerð á nefi, láttu lækninn vita, og hið sama gildir ef þú ert með ofnæmi. Efst á síðu.

Undirbúningur fyrir skurðaðgerð

Læknirinn veitir þér ráðleggingar um hvernig þú undirbýrð þig fyrir aðgerðina, m.a. varðandi mat og drykk, reykingar og inntöku lyfja. Yfirleitt gildir sú regla að vera fastandi frá miðnætti daginn fyrir aðgerðina. Ef þú reykir skaltu hætta a.m.k. 3-4 vikum fyrir aðgerð.
Fáir þú kvef eða einhvers konar sýkingu, þarf sennilega að fresta aðgerðinni. Gerðu ráðstafanir til að einhver sæki þig á sjúkrastofnunina og verði þér innan handar í 1-2 daga eftir aðgerðina.

Skurðstofa, svæfing og aðgerð

Nefaðgerð tekur yfirleitt 1-2 tíma en flóknari aðgerðir geta tekið lengri tíma. Yfirleitt er yfirborðshúð færð af beini og brjóski sem þá er hægt að móta að vild.

Að aðgerð lokinni er spelku komið fyrir á nefinu sem styður við hina nýju lögun þess. Stundum er mjúkum púðum komið fyrir í nösunum til að halda við miðsnesið, þ.e. vegginn á milli nasaholanna tveggja. Læknirinn skrifar upp á verkjalyf og e.t.v. sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu, áður en þú ferð af sjúkrastofnuninni. Efst á síðu.

Eftir aðgerðina

Eftir aðgerðina, sérstaklega fyrsta sólarhringinn, er andlitið bólgið, þig verkjar sennilega í nefið og ert með svolítinn höfuðverk. Þú getur haldið vanlíðan í skefjum með verkjalyfjum. Reyndu að halda þig í rúminu með höfuðið hærra en líkamann fyrsta daginn (þér er þó óhætt að skreppa á salernið). Ekki láta hugfallast þótt bólga og mar umhverfis augun aukist í fyrstu og sé mest 2-3 dögum eftir aðgerðina. Kaldir bakstrar hemja bólguna og láta þér líða betur. Þér líður sennilega mun betur en útlitið segir til um.
Mesta marið og bólgurnar ættu að hverfa á u.þ.b. 2 vikum. Smáblæðing er eðlileg fyrstu dagana eftir aðgerð og þér mun e.t.v. finnast nefið stíflað í nokkrar vikur. Ráðlegt er að snýta sér ekki fyrstu vikuna á meðan sárin eru að gróa. Eftir eina til tvær vikur eru allar umbúðir og spelkur fjarlægðar. Efst á síðu.

Fullum bata náð

Þú ættir að vera orðin nokkuð hress eftir 1-2 daga en gerðu ráð fyrir að taka því rólega fyrstu vikuna eftir aðgerðina. Haltu þig frá líkamlegri áreynslu, t.d. hlaupum, sundi, æfingum, kynlífi o.fl. sem hækkar blóðþrýstinginn, í 2-3 vikur. Forðastu að fá högg á nefið og nudda það, og haltu þig frá sólinni.
Þú getur sett í þig linsur þegar þér líður betur en gleraugu eru annað mál. Þegar búið er að fjarlægja stoðumbúðir þarftu að festa þau með plástri við ennið eða láta þau sitja á kinnunum í 6-7 vikur þar til nefið er að fullu gróið. Ef þú finnur fyrir óeðlilegum einkennum eða þarft að spyrja einhvers, hafðu samband við lækninn. Efst á síðu.

Nýja útlitið

Fyrstu dagana eftir aðgerð, þegar andlitið á þér er marið og bólgið, finnst þér e.t.v. ótrúlegt að þú munir einn daginn líta betur út. Sumir eru illa upp lagðir eftir aðgerðina og það er ósköp eðlilegt. Miklar líkur eru á því að þú verðir hæstánægð(ur) með nefaðgerðina, sérstaklega ef þú hefur hugfast að árangurinn sést ekki strax. Með hverjum deginum mun nefið líta betur út og eftir 1-2 vikur sést varla lengur að þú sért nýkomin(n) úr aðgerð, en þó getur einhver bólga verið viðvarandi í nokkra mánuði, eða allt að ári. Ekki taka nærri þér þó að fólk taki ekki eftir miklum mun á nefinu á þér – ef þú ert ánægð(ur) hefurðu náð tilætluðum árangri.

Ottó Guðjónsson.

Hafðu samband

Sérgrein:
Lýta- og
fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Domus Medica,
Egilsgötu 3, 105 Reykjavik
Sími:
563 1060
 
Sérgrein:
Lýta- og fegrunaraðgerðir
Aðsetur:
Domus Medica, Egilsgötu 3, 105 Reykjavik
Sími:
563 1060